IMO - Icelandic Meteorological Office

03/05/2021 | News release | Distributed by Public on 03/05/2021 03:21

Áfram þarf að gera ráð fyrir að gos geti brotist út

Líkur á að gos geti hafist á næstu klukkustundum hafa dofnað. Áfram gert ráð fyrir sömu sviðsmyndum varðandi líklegustu staðsetningu og mögulegt umfang goss. Taka þarf óróapúlsa alvarlega og reikna með að gos geti hafist þegar að þeir mælast.

5.3.2021

Uppfært 05.03. kl. 8.10

Í gær mældust um 3000 jarðskjálftar og frá miðnætti hafa tæplega 700 skjálftar mælst. Í heildina hafa rúmlega 20.000 jarðskjálftar mælst síðan hrinan hófst fyrir viku síðan. Mesta virknin eftir miðnætti er bundin við Fagradalsfjalli og hefur færst aðeins í NA, miðað við virkni í gær.

Enginn órói hefur mælst, enn skjálftavirkni er áfram mikill.

Stærstu skjálftar frá miðnætti:

  • Kl. 00:08 M3,0 Fagradalsfjall
  • Kl. 03:25 M3,0 Fagradalsfjall
  • Kl. 04:17 M3,0 Fagradalsfjall
  • Kl. 02:34 M3,0 Fagradalsfjall

Uppfært 04.03. kl. 18.15

Vísindaráð almannavarna fundaði á fjarfundi í dag til að ræða jarðskjálftahrinuna á Reykjanesskaga. Fundinn sátu fulltrúar frá Veðurstofu Íslands, Háskóla Íslands, Umhverfisstofnun, Isavia-ANS, HS-Orku og ÍSOR.

Á fundinum var farið yfir mælingar og gögn sem hafa borist síðasta sólarhringinn. Mat vísindamanna er að nýjustu gögn gefi ekki vísbendingar um að gos sé yfirvofandi á næstu klukkustundum.

Jarðskjálftamælingar sýna að virknin er ennþá mikil á svæðinu, þó dregið hafi úr henni eftir óróapúlsinn sem mældist í gær. Skjálftavirknin hefur verið að færast örlítið í suðvestur, en ennþá er megin virknin á þeim slóðum sem hún hefur verið að undanförnu.

Einnig var farið yfir nýjar InSAR gervihnattamyndir sem bárust í dag. Þær myndir spanna tímabilið frá 25. febrúar til 3. mars (kl. 18:59) og sýna ennþá merki um að kvikugangur sé að myndast á svæðinu milli Fagradalsfjalls og Keilis. Það styðja einnig GPS mælingar, sem sýna áfram nokkuð stöðuga hreyfingu, sem þó virðist hafa hægt á sér miðað við síðustu daga. GPS mælingarnar, ásamt InSAR gögnum, sýna því að ekki varð veruleg aukning í kvikurhreyfingum samfara jarðskjálftavirkninni í gær. Sérfræðingar munu túlka frekar gervihnattamyndir og GPS mælingar, til að átta sig á hversu miklar breytingar hafa átt sér stað og hvað þær þýða um framvindu mála.

Niðurstaða vísindaráðs er sú að nýjustu mælingar og gögn sýni að þau merki sem komu fram í gær um að veruleg hætta væri á að gos gæti hafist á næstu klukkustundum hafi dofnað mjög. Jarðskjálftavirkni og kvikuhreyfingar halda eigi að síður áfram. Því hefur þessi atburðarás ekki áhrif á þær sviðsmyndir sem unnið hefur verið eftir, að gera verði ráð fyrir að gos geti brotist út ásamt líklegustu staðsetningu og mögulegu umfangi goss.

Þessi mynd sýnir möguleg upptök og umfang á hraunrennsli ef til eldgoss kemur og er byggð á nýjustu gögnum. Þessi sviðsmynd er mjög sambærileg þeim sviðsmyndum sem áður hafa verið birtar.

Framvindan mun verða kaflaskipt á næstunni. Taka þarf óróapúlsa alvarlega og reikna með að gos geti hafist þegar að þeir mælast.

Gera verður ráð fyrir að framvinda á Reykjanesskaga muni verða kaflaskipt næstu daga og aftur geta komið skyndilegir púlsar með þéttum smáskjálftum (óróapúlsar), sambærilegir þeim sem mældust í gær. Dæmi um slíka kaflaskipta virkni, þar sem kvika kemst á hreyfingu og framkallar púlsa með tíðum smáskjálftum, eru Kröflueldar 1975-1985 . Þar einkenndist virknin af talsverðri skjálftavirkni og kvikuhreyfingum samfara púlsum með smáskjálftavirkni. Í sumum tilfellum urðu eldgos, í öðrum ekki.

Það er mat vísindaráðs að nauðsynlegt sé að taka óróapúlsa, sambærilegum þeim sem varð í gær, alvarlega og reikna með þeim möguleika að gos kunni að vera yfirvofandi þegar þeir mælast.

Vísindaráð mun hittast aftur á morgun til að ræða nýjustu gögn og mælingar.

Uppfært 04.03. kl. 9.15

Jarðskjálfti af stærð 4.5 mældist kl 08:54 við Fagradalsfjall. Skjálftinn fannst vel á suðvestur horni landsins. Órói hefur ekki byrjað aftur samhliða skjálftanum. Þetta er stærsti skjálfti síðan 2. mars kl. 03:05 en sá var 4.6 að stærð.

Uppfært 04.03. kl. 8.10

Í gær mældust um 2500 jarðskjálftar og frá miðnætti hafa tæplega 800 skjálftar mælst. Í heildina hafa ríflega 18.000 jarðskjálftar mælst síðan hrinan hófst fyrir um viku síðan. Mesta virknin er bundin við Fagradalsfjalli og hefur færst aðeins í SV, miðað við virkni í gær. Órói og skjálftavirkni minnkaði aðeins um miðja nótt, enn jókst aftur um fimmleytið. 15-20 skjálftar yfir 3 að stærð hafa mælst frá miðnætti.

Stærstu skjálftar frá miðnætti:

  • Kl.00:59 M4,1 við Fagradalsfjalli
  • Kl.04:04 M3,6
  • Kl.05:17 M3,9
  • Kl.05:36 M3.9
  • Kl.05:44 M4,0

Uppfært 03.03. kl. 20.50

Óróapúls mældist kl. 14:20 og sást á flestum jarðskjálftamælum. Púlsinn er staðsettur suður af Keili við Litla Hrút.

Óróamerkið er enn vel greinanalegt þó það hafi heldur minkað eftir kl. 17 í dag. Áfram er mikil jarðskjálftavirkni á svæðinu.

Um 1700 jarðskjálftar hafa mælst síðan á miðnætti, sá stærsti af stærð 4,1 kl. 02:12, en flestir skjálftar nú í eftirmiðdag eru minni, en sá stærsti í kvöld kl. 20:17 var 3,8 að stærð.

Uppfært kl. 16.20

Sá órói sem nú mælist er í takti við þær sviðsmyndir sem unnið hefur verið eftir og hafa verið kynntar í upplýsingum frá vísindaráði. Ekki er reiknað með að gos sem kæmi upp á þessum slóðum muni ógna byggð.

Mælingar gefa ekki skýrar vísbendingar um hvort og þá hvenær kvika næði upp á yfirborðið. Sérfræðingar Veðurstofunnar eru nú í eftirlitsflugi til að sjá hvort sigdældir séu að myndast á svæðinu sem benda til þess að mjög grunnt sé í kviku.

Miðað við gögn sem nú liggja fyrir er sú sviðsmynd sem er sýnd fyrir neðan, líklegust hvað varðar hraunflæði og umfang þess ef til goss kæmi.

Uppfært kl. 14.50

Óróapúls hófst kl. 14:20 og mælist á flestum jarðskjálftamælum og er staðsettur suður af Keili við Litla Hrút. Slík merki mælast í aðdraganda eldgosa en ekki hefur verið staðfest að eldgos sé hafið. Unnið er að nánari greiningu. Von er á meiri upplýsingum.

Uppfært 03.03. kl. 8.45

Klukkan 02:12 í nótt kom skjálfti af stærðinni 4.1 og fjórum mínútum síðar annar 3.2 að stærð. Báðir skjálftarnir eru á því svæði við norður enda Fagradalsfjalls þar sem virknin hefur verið hvað mest. Tilkynningar hafa borist Veðurstofunni um að fyrri skjálftans hafi orðið vart á höfuðborgarsvæðinu, í Grindavík og í Reykjanesbæ.

Vísindaráð almannavarna hittist á stuttum fundi í hádeginu í gær vegna jarðskjálfta og innskotavirkni á Reykjanesskaga. Farið var yfir þá jarðskjálfta sem hafa orðið frá síðasta fundi sem haldinn var í gær. Þeir eru allmargir og misstórir, núna eru tvö jarðskjálftasvæði virk en mesta virknin er milli Keilis og Fagradalsfjalls, einnig er töluverð skjálftavirkni hjá Trölladyngju þar sem 8 skjálftar hafa mælst og hafa allir verið undir 3 að stærð.

Auk þess voru ræddar líkankeyrslur sem gerðar eru til þess að meta stærð og staðsetningu gangs sem er í myndun þar sem jarðskjálftavirkni er hvað mest. Enn vantar meiri gögn til þess að áætla þessar stærðir, en næsta gervitunglamynd mun berast annað kvöld. Úrvinnsla á gervitunglamyndum og mælingar með GPS tækjum á jörðu niðri eru þó í samræmi. Vísindaráð hittist aftur seinni partinn á morgun.

Eldgos mun að öllum líkindum ekki ógna byggð

Veðurstofan hefur útbúið tvær myndir sem sýna mögulegt umfang á hraunrennsli ef til eldgoss kemur. Horft er á þá tvo staði sem mælingar gefa til kynna að líklegast sé að kvika brjóti sér leið upp á yfirborðið. Líkön gefa til kynna að um væri að ræða meðalstórt gos um 0.3 km3, sem er sambærilegt að umfangi og Arnarseturshraun á Reykjanesskaga. Slíkt gos mynd að öllum líkindum ekki ógna byggð. Til samanburðar er rúmmál gossins í Holuhrauni áætlað um 1.2-1.6 km3.

Myndin sýnir mögulegt umfang hraunrennsli ef á 2 km langri sprungu á milli Keilis og Litla Hrúts.

Þessi mynd sýnir mögulegt umfang hraunrennslis á 2 km langri sprungu í Fagradalsfjalli.

Eins hefur verið útbúið líkan af mögulegri gasmengun ef til eldgoss kæmi. Þessi myndir sýnir líkurnar á því að gasmengun af völdum SO2 færi yfir viðmiðunarmörk Umhverfisstofnunar sem teljast 'óholl' fyrir fólk. Líkönin gefa til kynna að gasmengun af mögulegu eldgosi á svæðinu í nágrenni Keilis þarf að vera í miklu magni til að verða hættuleg fólki.


Mælitækjum fjölgað til að gefa skýrari mynd af framvindu mála

Sérfræðingar Veðurstofunnar vinna nú hörðum höndum að fjölga mælitækjum til að fá skýrari mynd á framvindu mála. Í vikunni verður GPS tækjum fjölgað myndir með dróna teknar af yfirborði til þess að meta hvort einhver merki séu farin að sjást um færslur eða sprungumyndanir.

Uppfært 02.03. kl. 8.10

Hrinan á Reykjanesskaga stendur enn yfir og er mesta virknin nú bundin við nágrenni Keilis og Trölladyngju. Aðeins dró úr virkninni í gærkveldi en upp úr kl. 22 jókst hún aftur. Á miðnætti mældist skjálfti M3.6 að stærð 1.3 km NA af Trölladyngju. Rétt um klukkan 3 í nótt mældust svo tveir skjálftar yfir stærð 4. Sá fyrri var kl 02:53 1.3 km SV af Keili og var 4.3 að stærð. Sá seinni var í Fagradalsfjalli, kl 03:05, 4.6 að stærð. Þeirra varð beggja vel vart á Suðvesturhorninu og þess seinni alveg austur á Hellu og í Vestmannaeyjum.

Uppfært 01.03. kl. 18.15

Vísindaráð almannavarna fundaði á fjarfundi í dag til að ræða jarðskjálftahrinuna á Reykjanesskaga. Fundinn sátu fulltrúar frá Veðurstofu Íslands, Háskóla Íslands, Umhverfisstofnun, Isavia-ANS, HS-Orku og ÍSOR.

Fram kom á fundinum að sjálfvirka jarðskjálftakerfi Veðurstofunnar hefur mælt um 1800 skjálfta frá miðnætti og eru þeir að mestu bundnir við svæði SV af Keili og Trölladyngju. Af þessum 1800 eru 23 skjálftar að stærð 3 eða stærri og um 3 skjálftar eru 4 að stærð eða stærri. Sá stærsti frá miðnætti mældist kl. 16:35, 5,1 að stærð og átti hann upptök um 1 km ASA við Keili.

Vísindaráð fór einnig yfir gervihnattamyndir (InSAR) sem bárust í dag. Úrvinnsla úr þeim myndum sýna meiri færslu en áður hefur orðið vart við á svæðinu síðustu daga. Líklegasta skýringin er sú að kvikugangur sé að myndast undir því svæði þar sem mesta jarðskjálftavirknin hefur verið síðustu daga. Unnið verður betur úr þessum nýju gögnum m.a. með líkangerð til þess að varpa skýrara ljósi á framvindu mála.

Í ljósi þessara nýju gagna sem rædd voru á fundi vísindaráðs í dag og sérfræðingar hafa farið yfir, er mikilvægt að skoða nánar þá sviðsmynd sem snýr að kvikuinnskoti undir svæðinu við Fagradalsfjall.

Mögulegar sviðsmyndir:

  • Það dregur úr jarðskjálftavirkni næstu daga eða vikur.
  • Hrinan mun færast í aukana með stærri skjálftum, allt að 6 að stærð í nágrenni við Fagradalsfjall
  • Skjálfti af stærða allt að 6.5 verður sem á sér upptök í Brennisteinsfjöllum
  • Kvikuinnskot haldi áfram í nágrenni við Fagradalsfjall:
    • Kvikuinnskotsvirkni minnkar og kvika storknar
    • Leiðir til flæðigoss með hraunflæði sem mun líklega ekki ógna byggð

Núverandi virkni á Reykjanesskaga er kaflaskipt og er erfitt að spá fyrir um nákvæma framvindu og hvort ein sviðsmynd sé líklegri en önnur. Von er á nýjum gögnum síðar í vikunni sem geta varpað skýrara ljósi á ástæður þessarar hrinu. Vísindaráð mun funda aftur á morgun til að leggja frekara mat á þau gögn sem liggja fyrir ásamt því að meta nýjar mælingar.

Nýjasta úrvinnsla úr gervihnattamyndum úr Sentinel-1 sem barst í morgun. Hún sýnir meiri færslu en áður hefur orðið vart við á svæðinu síðustu daga og á því svæði þar sem mesta jarðskjálftavirknin hefur verið. Sjá PDF útgáfu af myndinni hér.

Uppfært 01.03. kl. 10.15

Tæplega 800 jarðskjálftar hafa mælst á Reykjanesi frá miðnætti. Er virknin áfram einkum bundin við svæðið SV við Keili og við Trölladyngju. Í nótt kl. 01:31 varð skjálfti af stærð M4,9 um 2,5 KM VSV af Keili og fannst hann víða á Reykjanesskaga, höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi og Vesturlandi.

Sex skjálftar yfir M3,0 hafa mælst frá miðnætti. Fimm þeirra mældust VSV við Keili en einn SA við Trölladyngju.

Uppfært 28.02. kl. 21.30

Frá miðnætti í dag hafa nú mælst yfir 1600 jarðskjálftar á Reykjanesskaga, þar af 33 yfir M3,0 og sjö M4,0 eða stærri. Virknin er aðallega bundin við svæði sem er um 2 km NA við Fagradalsfjall en eftir hádegi færðist virknin lítillega í NA nær Keili. Auk þess mældust skjálftar við Trölladyngju í nótt og við Grindavík rétt eftir hádegi. Skjálftarnir hafa fundist vel á höfuðborgarsvæðinu að Borgarnesi og austur að Hvolsvelli.

  • M4,7 kl. 00:19 um 2,0 km NA af Fagradalsfjalli
  • M4,0 kl. 07:54 um 1,5 km NA af Fagradalsfjalli
  • M4,3 kl. 11:32 um 3 km NA af Fagradalsfjalli
  • M4,2 kl. 15:39 um 1,5 km VSV af Keili
  • M4,3 kl. 16:29 um 0,5 km V af Keili
  • M4,0 kl. 18:43 um 1,0 km SV af Keili
  • M4,7 kl. 19:01 um 2,0 km SSV af Keili

Kortið sýnir staðsetningu jarðskjálfta sem hafa verið yfirfarnir í dag.

Þetta kort sýnir staðsetningu þeirra sjö skjálfta sem hafa mælst M4,0 eða stærri það sem af er degi.

Uppfært 28.02. kl. 13.20

Laust upp úr miðnætti varð jarðskjálfti af stærð 4,7 um 2,8 km NA af Fagradalsgjalli. Klukkan 5:54 mældist svo skjálfti 4,0 að stærð og annar kl. 11:31 um 4,3 að stærð, báðir áttu upptök um 2,5 km NA af Fagradalsfjalli. Tilkynningar hafa borist víðsvegar af Reykjanesskaganum og höfuðborgarsvæðinu, austur á Hvolsvöll og upp í Borgarfjörð, um að skjálftarnir hafi fundist þar.

Eins og fram kom á fundi vísindaráðs almannavarna í gær gefa mælingar síðusta daga engar vísbendingar um kvikusöfnun eða gosóróa á svæðinu.

Yfir 10.000 jarðskjálftar hafa verið staðsettir með sjálfvirka jarðskjálftamælikerfi Veðurstofu Íslands frá því að hrinan hófst í síðustu viku. Um 30 skjálftar yfir M4,0 hafa mælst og um 200 jarðskjálftar hafa verið stærri en M3,0.

Uppfært 27.02. kl. 18.40

Vísindaráð almannavarna fundaði á fjarfundi í dag til að ræða jarðskjálftahrinuna á Reykjanesskaga. Fundinn sátu fulltrúar frá Veðurstofu Íslands, Háskóla Íslands, Umhverfisstofnun, Isavia-ANS, HS-Orku og ÍSOR.

Fram kom á fundinum að virknin í skjálftahrinunni er núna fyrst og fremst bundin við svæðið í kringum Fagradalsfjall eftir M5,2 í morgun og er hrinan sú öflugasta frá árinu 1933.

Vísindaráð fór yfir þær mælingar og gögn sem liggja fyrir s.s. jarðskjálftamælingar, GPS gögn, gasmælingar og úrvinnsla úr gervitunglamyndum. Mælingar gefa engar vísbendingar um að kvika sé að brjóta sér leið upp á yfirborðið, en sýna vel ummerki jarðskjálftanna sem hafa orðið hingað til.

Flestir skjálftar sem mælst hafa síðustu daga eru á um 5 km. dýpi við Fagradalsfjall og hafa ekki færst nær yfirborði, en slíkt gæti verið vísbending um að kvika sé að brjóta sér leið upp á yfirborðið. Í hrinu sem varð við Fagradalsfjall árið 1933 urðu all nokkrir kröftugir skjálftar á skömmum tíma, sambærilegir þeim sem nú ganga yfir. Þeirri hrinu lauk án þess að til eldgoss kæmi. Sama má segja um hrinu sem varð árið 1973.

Mynd sem sýnir dæmi um kröftuga skjálfta og hrinur sem orðið hafa á svæðinu við Fagradalsfjall á árunum 1930-2016. Smelltu hér til að sjá stærri útgáfu af myndinni.

Núverandi virkni á Reykjanesskaga sem í raun má rekja aftur um rúmt ár hefur verið kaflaskipt og er erfitt að spá fyrir um nákvæma framvindu, en nú er fyrst og fremst horft á þessar tvær sviðsmyndir:

  • Það dregur úr jarðskjálftavirkni næstu daga eða vikur.
  • Hrinan mun færast í aukana með stærri skjálftum, allt að 5.5-6.5 að stærð.

Yfir 7200 skjálftar hafa mælst frá því að hrinan hófst 24.febrúar og má búast við því að jarðskjálftavirkni haldi áfram næstu daga. Það er því mikilvægt að fólk hugi að innanstokksmunum á heimilum sínum til að tryggja að þeir valdi ekki slysum ef kröftugir skjálftar verða.

Veðurstofan, Háskólinn og samstarfsaðilar munu vinna að fjölgun mælitækja á Reykjanesskaganum á næstu dögum og vikum til að geta áttað sig betur á framvindu hrinunnar. Meðal annars er í skoðun að setja upp fleiri GPS mæla til að átta sig betur á eðli jarðskjálftahrinunnar. Eins er í skoðun að tengjast fleiri jarðskjálftamælum til dæmis þeim sem ÍSOR er með á svæðinu og koma þeim í rauntímavöktun á Veðurstofunni. Að auki er verið að skoða hvort hægt sé að koma fyrir jarðskjálftamælitækjum í Brennisteinsfjöllum sem eru austan við það svæði þar sem helsta virknin. Það gæti mögulega gefið skýrari mynd á þróun mála m.t.t. hvort að von sé á stærri skjálfta sem ætti upptök í Brennisteinsfjöllum en sagan geymir dæmi um upptök kröftugra skjálfta þar t.d. árið 1968.

Uppfært 27.02. kl. 11.30

Frá miðnætti hafa mælst yfir 1100 skjálftar, stærsti skjálftinn mældist 5,2 að stærð kl. 08:07 í morgun og fannst hann vel á höfuðborgarsvæðinu, austur á Skóga og norður í Hrútafjörð. Mínutu síðar mældist skjálfti af stærð 3,9. Um 24 jarðskjálftar yfir 3,0 að stærð hafa þar að auki mælst frá miðnætti. Virknin er aðalega bundin um 2 km NA við Fagradalsfjall og eftir M5,2 skjálftann í morgun virðist virknin hafa færst við SV horn Fagradalsfjalls og er það líklegast vegna spennubreytinga í kjölfar skjálftans.

Yfir 7200 skjálftar hafa mælst frá því að hrinan hófst 24.febrúar og má búast við því að jarðskjálftavirkni haldi áfram næstu daga.

Vegagerðin varar við sprungum sem myndast hafa í Suðurstrandarvegi á Reykjansskaga, vestan við Vigdísarvallaveg. Sprungurnar hafa líklega myndast í kjölfar jarðhræringa sem hafa verið á svæðinu. Í tilkynningu frá Vegagerðinni eru vegfarendur varaðir við sprungunum og þeim bent á að aka varlega um svæðið.

Sprungan í veginum er í tæplega 8.2km fjarlægð í loftlínu frá upptökum M5.7 skjálftans á miðvikudaginn.

Uppfært 27.02. kl. 9.10

Klukkan 08:07 varð jarðskjálfti 5,2 að stærð, um 2.5 km NA af Fagradalsfjalli. Fjöldi eftirskjálfta hafa mælst. Stærsti skjálftinn fannst austur að Skógum og norður að Hvanneyri. Alls hafa rúmlega 600 skjálftar mælst á Reykjanesskaga frá miðnætti. Þar af mældust 9 skjálftar yfir M3,0 að stærð. Af þessum níu mældist sá stærsti M3,8 kl. 2:30 og fannst hann víða á Reykjanesskaga, höfuðborgarsvæðinu og Vesturlandi. Annar skjálfti, af stærð M3,7, mældist kl. 04:14. Hrinan er nú einkum bundin við svæðið milli Fagradalsfjalls og Keilis

Svona hrinur eru ekki einsdæmi á þessu svæði, t.d. mældust um fimm skjálftar af stærð M4,9 til M5,9 við Fagradalsfjall þann 10. júní 1933.

Uppfært kl. 17.30

Í dag hafa 21 skjálfti mælst af stærð 3 til 4,4 norðanvert Fagradalsfjall. Á milli klukkan 11:59 og 14:00 mældust 14 jarðskjálftar þeirra og nú laust fyrir klukkan fimm mældust tveir, annar 4,4 að stærð. Þessir skjálftar hafa allir fundist á höfuðborgarsvæðinu og þeir stærstu einnig á Suðurlandi, á Akranesi og í Borgarnesi. Þessi virkni er með upptök í nágrenni við stærsta skjálfta hrinunnar sem varð kl. 10:05 að morgni 24. febrúar sl. og mældist 5,7 að stærð.

'Við höfum séð hrinur áður þar sem margir skjálftar af svipaðri stærð mælast á stuttum tíma. Þetta er sambærilegt því sem við sáum á Tjörnesbrotabeltinu síðastliðið sumar en þekkist einmitt líka í hrinum á Reykjanesskaganum', segir Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar á Veðurstofu Íslands. 'Klassísk jarðskjálftafræði gerir frekar ráð fyrir einum meginskjálfta og svo eftirskjálftum þar sem stærsti eftirskjálfti hefur styrk sem er 1,2 minni en meginskjálftinn og aðrir skjálftar eru minni. Við höfum hinsvegar mælt 5 aðra skjálfta, til viðbótar við 5,7 skjálftann, sem hafa styrk á bilinu 4,5 og 5. Þetta mætti túlka þannig að í raun séu þetta nokkrir meginskjálftar og svo margar eftirskjálftahrinur. Jarðskorpan er tiltölulega þunn á Reykjanesskaganum og stærstu skjálftar á þessu hrinusvæði verða ekki mikið stærri þar, einfaldlega vegna þess að jarðskorpan brotnar áður en meiri spenna getur hlaðist upp', segir Kristín.

Myndin hér að neðan sýnir samsettar Sentinel-1 gervitunglamyndir sem bárust í morgun og spanna tímabilið 19.-25. febrúar. Gervitunglaúrvinnsla staðfestir að færslur hafa mælst á svæðinu milli Svartsengis og Krýsuvíkur en þær nema nokkrum sentímetrum. Flekaskil ganga þvert í gegnum Reykjanesskagann og eru færslurnar sem mælast með gervitunglum til marks um landrekshreyfingar þar sem Evrasíuflekinn færist í austlæga átt og Ameríkuflekinn til vesturs. Engin gögn benda til að eldgos sé yfirvofandi.

Rauður litur táknar hreyfingu í átt að gervitunglinu og fjólublár hreyfingu frá gervitunglinu sem flaug vestur fyrir landið. Svörtu örvarnar yfir landakortinu tákna færslur Evrasíuflekans og Ameríkuflekans.Svörtu örvarnar í hægra horninu niðri sýna stefnu og sjónlínu gervitungls. Stærsti jarðskjálftinn að stærð 5,7 sem varð 24. febrúar síðastliðinn birtist sem rauð stjarna.Hér er myndin á PDF formi.

Gasmælisýni sem tekin voru í gær sýna óvenju há gildi af vetni. Túlkun á mælingunni liggur ekki fyrir en ekki er hægt að útiloka að hún sé til marks um kvikugas á nokkurra kílómetra dýpi sem losnað hafi í jarðskjálftunum. Engar aðrar markverðar breytingar sjást fyrir aðrar gasmælingar en vetni. Mælingarnar verða endurteknar eftir helgi.

Uppfært kl. 12.20

Nú kl. 12:06 varð jarðskjálfti af stærð 4,4 um 2 km NA af Fagradalsfjalli. Skjálftinn fannst vel á höfuðborgarsvæðinu og allt norður í Borgarnes.

Uppfært 26.02. kl. 9.10

Jarðskjálftahrinan á Reykjanesi er enn í gangi. Frá því um miðnætti hafa mælst um 600 jarðskjálftar á svæðinu. Einn skjálfti af stærð 3.2 mældist núna í morgun kl. 08:37, 2,1 km austur af Fagradalsfjalli. Sskjálftinn fannst á Reykjanesskaganum og áhöfuðborgarsvæðinu. Aðrir skjálftar frá því um miðnætti hafa verið minni. Frá því að hrinan hófst hafa mælst hátt í 5000 skjálftar á svæðinu.

Uppfært 25.02. kl. 15.00

Núna kl. 14:35 varð skjálfti af stærð M3,5 rétt fyrir norðan Fagradalsfjall. Hann fannst á Reykjanesi og höfuðborgarsvæðinu.

Hrinan er enn í gangi en rúmlega 2500 jarðskjálftar hafa verið staðsettir með sjálvirka jarðskjálftamælikerfi Veðurstofu Íslands frá miðnætti.

Uppfært 25.02. kl. 10.00

Tveir skjálftar yfir M3 að stærð mældust á Reykjanesskaganum í nótt. Sá fyrri mældist M3,1 að stærð kl. 00:53 og átti upptök um 4 km SSV af Fagradalsfjalli en sá síðari mældist M3,4 að stærð kl. 03:26 um 2,2 km N af Krýsuvík. Fundust báðir víða á höfuðborgarsvæðinu og á Reykjanesskaganum.

Jarðskjálftahrinan er enn í gangi þó heldur hafi dregið úr fjölda kröftugra skjálfta í bili. Sjálfvirka jarðskjálftamælikerfi Veðurstofu Íslands hefur mælt um 1000 jarðskjálfta á svæðinu frá miðnætti.

Núverandi virkni á Reykjanesskaga sem í raun má rekja aftur um rúmt ár hefur verið kaflaskipt og er erfitt að spá fyrir um nákvæma framvindu, en nú er fyrst og fremst horft á þessar tvær sviðsmyndir:

  • Það dregur úr jarðskjálftavirkni næstu daga eða vikur.
  • Hrinan mun færast í aukana með stærri skjálftum, allt að 5.5-6.5 að stærð.

Veðurstofan mun halda áfram að fylgjast náið með þróun mála. Mælingar hingað til gefa engar vísbendingar um kvikuinnskot í þessari hrinu en sérfræðingar Veðurstofunnar munu halda áfram að mæla gasútstreymi á svæðinu, en ummerki um kvikugös, ef einhver væru, gætu sést í gasmælingum.

Melissa Anne Pfeffer við gasmælingar á Reykjanesskaganum í gær. (Ljósmynd: Veðurstofa Íslands/Sara Barsotti)

Uppfært kl. 16.45

Í jarðskjálftahrinum eins og þeirri sem nú gengur yfir getur grjóthrun orðið og jafnvel skriður eða snjóflóð fallið. Eitthvað hefur verið um skriðuföll á Reykjanesskaga vegna skjálftanna. Meðal annars féll talsvert af grjóti yfir gamla Suðurstandaveginn sem nú er aflagður. Einnig hafa tilkynningar borist af grjóthruni í Þorbirni við Grindavík, úr Keili, við Djúpavatnsleið og við Kleifarvatn.

Myndir sem sýna grjóthrun í Þorbirni og var tekin í eftirlitsflugi með þyrlu Landhelgisgæslunnar í morgun. (Ljósmyndir: Veðurstofan/Esther Hlíðar Jensen)

Á bloggsíðu ofanflóðavaktar Veðurstofunnar kemur fram að ef skjálftavirknin heldur áfram er talin meiri hætta á að jarðskjálftarnir komi af stað grjóthruni en öðrum ofanflóðum. Ef skjálftavirkni færist austar stækkar áhrifasvæðið og nær þá u.þ.b. yfir Reykjanesskaga, norður í Hvalfjarðarsveit, umhverfis Þingvallavatn og austur að Þjórsá. Á því svæði eru mörg fjöll sem nýtt eru til útivistar, m.a. Esjan, Hengill, Ingólfsfjall, Vífilsfell, Helgafell og Keilir. Fólki er bent á að fara varlega í bröttum hlíðum og forðast svæði þar sem grjót eða snjór getur hrunið.

Jarðskjálftahrinan minnir íbúa á þekktum jarðskjálftasvæðum á mikilvægi þess að huga að lausum innanstokksmunum og kynna sér varnir og viðbúnað vegna jarðskjálfta á vefsíðu almannavarna.

Uppfært kl. 13.58

Kristín Jónsdóttir, fagstjóri náttúruvárvöktunar á Veðurstofu Íslands, segir í viðtali við fréttastofu RÚV að óstöðugleiki nái yfir stórt svæði. Jarðskjálftarnir í morgun hafa verið milli Kleifarvatns og Grindavíkurvegar. Hins vegar hafa engir skjálftar fundist milli Kleifarvatns og Bláfjalla á þessu ári. Þar hafa í sögunni orðið skjálftar að stærð 6,5. Það gæti verið vísbending um að það svæði sé læst og losni ekki um spennu þar nema í stærri skjálfta. 'Við erum í miðjum atburði núna. Við teljum að meðan þessi óstöðugleiki er í gangi þá eru auknar líkur á því að það verði enn þá fleiri skjálftar og jafnvel stærri skjálftar', sagði Kristín í viðtali við Hólmfríði Dagnýju Friðjónsdóttur í aukafréttatíma í sjónvarpi í hádeginu. 'Hrinan byrjaði austan við Fagradalsfjall og svo flutti hún sig nær Krýsuvík í Núpshlíðarháls og svo hafa fleiri skjálftar dreift sér á ríflega 20 km langt svæði milli Kleifarvatns og Sýlingafells..'

Kristín segir hrinuna óvenjulega, hún sé kröftug og henni fylgi margir kröftugir skjálftar á stuttum tíma. Engar vísbendingar eru þó um gosóróa, en sérfræðingar Veðurstofunnar hafa meðal annars verið við gasmælingar á svæðinu til að meta hvort einhverjar breytingar séu merkjanlegar á gasútstreymi. Ummerki um kvikugös, ef einhver væru, gætu sést í gasmælingum.

Mikilvægt er að gera sér grein fyrir hættum sem stafa af hrinum sem þessum:

  • Skriður og grjóthrun geta átt sér stað eftir stóra jarðskjálfta, líklegast á svæðum með óstöðugar hlíðar, bratta klettarveggi og laust efni, t.d. í nágrenni Kleifarvatns.
  • Skjálftar af stærð M5.5-6.5 geta átt sér stað á Reykjanesskaganum. Slíkir skjálftar geta valdið tjóni víða m.a. á höfuðborgarsvæðinu.
  • Gas getur safnast fyrir í lægðum þegar það er logn eða hægur vindur.

Uppfært kl. 12.48

Núna kl. 12:37 varð skjálfti af stærð M4,8 við Kleifarvatn.


Uppfært kl. 11.36

Skjálftinn sem mældist M5.7 í morgun er hluti af hrinu sem hófst í kringum Krýsuvík fyrir nokkrum dögum. Frá miðnætti hafa mælst um 500 skjálftar í hrinunni. Annar skjálfti M4.2 mældist um kl. 10.27 og átti hann upptök í Núpstaðahálsi innan við 1 km NV af Krýsuvík. Hefur sjálfvirka jarðskjálftakerfi Veðurstofunna numið alls 11 skjálfta yfir M4,0 að stærð frá því hrinan hófst.

Uppfært kl. 11.20
Jarðskjálftinn á Reykjanesskaga hefur fundist víða um land. Veðurstofan hefur fengið tilkynningar meðal annars úr Húnaþingi, Ólafsvík, Ísafirði og frá Hellu.

Við bendum á að vegna jarðskjálftahrinunnar eru auknar líkur á grjóthruni í og skriðuföllum á Reykjanesskaga á meðan á hrinunni stendur.

Uppfært kl. 10.30

Rúmlega 500 jarðskjálftar mældust á Reykjanesskaganum í síðustu viku, um 100 fleiri en í fyrri viku. Mesta virknin var annars vegar við Fagradalsfjall, einkum síðari hluta vikunnar og hins vegar norðan og austan Grindavíkur. Stærsti skjálftinn við Fagradalsfjall var 2,3 að stærð þann 21. febrúar kl. 09:28 og sá stærsti við Grindavík, 2,8 þann 21. febrúar kl. 17.30. Engar tilkynningar bárust um að þessir skjálftar hefðu fundist. Þann 18. febrúar kl. 08:10 varð skjálfti 2,9 að stærð við Núpshlíðarháls. Það var stærsti skjálfti vikunnar. Um 20 jarðskjálftar mældust á Reykjaneshrygg, stærsti 18. febrúar kl. 08:16 M2,8.

Athugið að skjálftavirknin er bundin við Reykjanesskaga. Aðrar staðsetningar á skjálftum eru óáreiðanlegar meðan verið er að fara yfir sjálfvirkar mælingar. Á kortum okkar birtast óyfirfarin gögn sem þýðir að þar má greina tákn um staðsetningu skjálfta utan Reykjanesskaga sem ekki eru áreiðanleg gögn.

Færsla kl. 10.15

Í dag kl. 10:05 varð skjálfti af stærð M5.7 3.3 km SSV af Keili á Reykjanesskaga. Hann fannst víða á Suðvesturhorni landsins, m.a. í Vestmannaeyjum. Fjöldi eftirskjálfta hefur fylgt og búast má við frekari eftirskjálfum.