Ministry of Finance and Economic Affairs of Iceland

12/10/2019 | Press release | Distributed by Public on 12/10/2019 10:30

„Verðum að nálgast loftslagsvána með hugarfari þess sem vill og getur“ – umhverfis- og auðlindaráðherra ávarpaði Loftslagsráðstefnu SÞ

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, ávarpaði í dag Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna fyrir Íslands hönd. Hann hvatti þjóðir heims til lausnamiðaðrar nálgunar í baráttunni gegn hamfarahlýnun. 'Ef athafnir okkar geta stefnt okkur í jafnmikinn voða og raun ber vitni þá getum við líka gripið til aðgerða sem afstýra hættunni. Við mannfólkið getum unnið stórkostleg afrek. Við verðum að nálgast loftslagsvána með hugarfari þess sem vill og getur.'

Ráðherra lagði áherslu á að gripið væri til áhrifaríkra aðgerða. 'Fyrst og fremst verðum við að stöðva losun. Í öðru lagi þurfum við langtímaáætlanir, m.a. um kolefnishlutleysi og í þriðja lagi að binda meira en við losum (e. net negative emissions). Við þurfum að auka umfang aðgerða sem virka.'

Í ávarpi sínu undirstrikaði ráðherra nauðsyn aðgerða sem skila samdrætti í losun og benti á orkuskipti í samgöngum sem dæmi. Þá sagði hann mikilvægt að vinna langtímaáætlanir í loftslagsmálum, líkt og Parísarsamkomulagið gerir einnig ráð fyrir. Kolefnishlutleysi væri einnig mikilvægt markmið sem Ísland tæki alvarlega og ynni að. Þannig hefðu aðgerðir sem miða að bindingu kolefnis, s.s. skógrækt, landgræðsla og endurheimt votlendis, verið auknar til muna. Slíkar aðgerðir hafi að auki mikil samlegðaráhrif. 'Þær styðja við endurheimt líffræðilegrar fjölbreytni og eru atvinnuskapandi í hinum dreifðari byggðum um leið og þær binda kolefni úr andrúmsloftinu.'

Guðmundur Ingi lagði einnig áherslu á mælikvarða um hagsæld og lífsgæði og sagði frá áætlunum Íslands um að meta fjármálaáætlun ríkisins út frá þremur stoðum sjálfbærrar þróunar, þ.e. efnahagslegum, umhverfislegum og samfélaglegum áhrifum, í því skyni að horfa til velferðar samfélagsins í heild. Loftslagsmál væru í forgrunni þeirrar vinnu.

Þannig þyrfti að breyta viðmiðum samfélaga um velmegunæld. 'Við verðum að horfa til velsældar frekar en neyslu. Velferðarsamfélagið krefst nýrrar hugsunar og gilda og að við forgangsröðum upp á nýtt. Baráttan gegn hamfarahlýnun verður að vera efst á forgangslistanum til að tryggja velferð komandi kynslóða. Það kallar á aðgerðir - strax.'

Ávarp Íslands

Facebookupptaka frá ávarpi umhverfis- og auðlindaráðherra á COP25