Results

Ministry of Finance and Economic Affairs of Iceland

11/15/2019 | Press release | Distributed by Public on 11/15/2019 05:31

Frumvarp til laga um samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir í samráðsgátt

Drög að frumvarpi til laga um samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir (PPP) hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda til umsagnar. Allir hafa tækifæri til að senda inn umsögn eða ábendingar en frestur til að skila umsögn er til og með 28. nóvember 2019. Frumvarpinu er ætlað að kveða á um heimildir til að stofna til samvinnu opinberra aðila við einkaaðila um tilteknar vegaframkvæmdir og gjaldtöku vegna þeirra.

Í kynningu á frumvarpinu í samráðsgátt segir að þótt aukið fjármagn hafi komið til vegagerðar í gildandi fjármálaáætlun dugi það engan veginn til að fullnægja þörfinni. Því þurfi að leita leiða til þess að fjármagna framkvæmdir og flýta þeim eins og kostur er. Í skýrslu starfshóps um fjármögnun samgangna frá apríl 2019 sagði að samvinnuverkefni (PPP) væru fýsileg í þeim tilvikum þar sem þau væri raunhæfur kostur, þ.e. í stórum og vel skilgreindum nýframkvæmdum. Starfshópurinn nefndi sem dæmi um slík verkefni annars vegar Sundabraut og hins vegar tvöföldun Hvalfjarðarganga. Í einhverjum tilvikum kæmi jafnframt til greina að semja við einkaaðila um að annast hluta fjármögnunar framkvæmdanna til móts við fjárframlag af samgönguáætlun.

Frumvarpið sem kynnt er í samráðsgátt var samið á grundvelli þessara niðurstaðna og gerir ráð fyrir að heimilt sé að bjóða tilteknar framkvæmdir út sem samvinnuverkefni. Hugtakið samvinnuverkefni er nánar skilgreint í frumvarpinu og er þar átt við verkefni þar sem einkaaðili annast fjármögnun í heild eða að hluta eða tekur með öðrum hætti áhættu af gerð og rekstri opinbers mannvirkis, eftir atvikum með heimild til gjaldtöku fyrir notkun mannvirkisins á rekstrartíma. Samvinnuverkefni felur að jafnaði í sér samvinnu um fjármögnun, áætlanagerð, hönnun, uppbyggingu mannvirkja, viðhald, rekstur og/eða annað sem nauðsynlegt er til að ljúka megi framkvæmd og reka mannvirki í tiltekinn tíma.

Þær framkvæmdir sem áætlað er að unnar verði sem samvinnuverkefni eru eftirfarandi:

  • Hringvegur norðaustan Selfoss, brú á Ölfusá.
  • Hringvegur um Hornafjarðarfljót.
  • Axarvegur.
  • Tvöföldun Hvalfjarðarganga.
  • Hringvegur um Mýrdal og jarðgöng í Reynisfjalli.
  • Sundabraut.