Prime Minister's Office of Iceland

09/16/2021 | Press release | Distributed by Public on 09/16/2021 11:43

Loftslagsmál og vistheimt áhersluatriði nýs Grænfánasamnings

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, undirrituðu í dag, á degi íslenskrar náttúru, fimm ára styrktarsamning vegna verkefnisins Skólar á grænni grein.

Skólar á grænni grein (e. Eco-Schools), einnig kallað Grænfánaverkefnið, er alþjóðlegt umhverfismenntarverkefni sem miðar m.a. að því að efla sjálfbærnimenntun, umhverfisvitund og samfélagskennd, veita nemendum menntun og færni til þess að fást við umhverfismál og styðja við umhverfisstefnur skóla.

'Skólar á grænni grein er stærsta einstaka umhverfismenntaverkefni í heiminum. Það er vel við hæfi nú í upphafi áratugsvistheimtar hjá Sameinuðu þjóðunum að setja aukinn kraft í samlegð aðgerða í þágu umhverfisins, þ.e. loftslagsmála og endurheimtar vistkerfa. Ungt fólk á stóran þátt í aukinni vitund og umræðu um umhverfismál undanfarin misseri og ég er ekki í nokkrum vafa um að Grænfánaverkefnið á mjög stóran þátt í því,' segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. 'Við erum afar stolt af þessu samstarfi hins opinbera og frjálsra félagasamtaka.'

'Það er mikil gróska og metnaður í íslenskum skólum og það sést vel í fjölbreyttum verkefnum sem unnin eru undir merkjum Skóla á grænni grein. Framtíðin er unga fólksins og þau hafa ástríðu, metnað og frjóar hugmyndir á sviði sjálfbærni og umhverfismála, og þann kraft þurfum við sem samfélag að nýta,' segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra. 'Sjálfbærni er einnig leiðarljós okkar í nýrri menntastefnu og mikilvægur drifkraftur í frekari þróun menntakerfisins.'

Samningurinn var undirritaður við leikskólann Drafnarstein í Reykjavík, sem hefur verið þátttakandi í verkefninu síðan 2011 og dró í dag að húni sinn fimmta grænfána. Börn á elstu deild leikskólans voru viðstödd undirritunina, en leikskólinn hefur lagt sérstaka áherslu á lífbreytileika í grænfánastarfi sínu.

Þetta er í fjórða sinn sem ráðuneytin gera langtímasamning við Landvernd um Grænfánaverkefnið. Samningurinn tekur til ólíkra þátta í umhverfismennt nemenda í þátttökuskólum og er að þessu sinni sérstök áhersla lögð á að vinna að vistheimt með skólum og aukna þekkingu um loftslagsbreytingar, sem geri nemendum og kennurum fært að leita lausna innan skólasamfélagsins. Er þetta m.a. í samræmi við aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum.

Landvernd fagnar á þessu ári 20 ára afmæli Skóla á grænni grein. 170 skólar á öllum skólastigum taka nú þátt í verkefninu, sem ætlað er skólum sem vilja komast á græna grein í umhverfismálum. Til að ná því markmiði þurfa skólarnir að stíga sjö skilgreind skref og fá að því loknu leyfi til að flagga grænfánanum næstu tvö ár. Sú viðurkenning fæst svo endurnýjuð, ef skólarnir halda áfram að sinna umhverfisstarfi af metnaði.