Reykjavik University

11/25/2022 | Press release | Distributed by Public on 11/25/2022 04:47

Lærði til þjóns, en sinnti svo upplýsingatækni í 20 ár í HR

FÓLKIÐ Í HR // Þjónustustjórinn Arnar Egilsson kveður HRinga eftir farsælt starf í tvo áratugi og heldur til nýrra starfa

25.11.2022

Þjónustustjórinn Arnar Egilsson er kunnur flestum ef ekki öllum HRingum sem numið hafa eða starfað við skólann síðastliðin 20 ár. Arnar var starfsmaður skólans númer 86 og stendur nú á tímamótum eftir 20 ára starfsferil hjá Háskólanum í Reykjavík því að hann hefur nú haldið til nýrra starfa. Við fórum yfir farinn veg með Arnari skömmu fyrir kveðjudaginn, ræddum jólahlaðborð í Sólinni áður en HR var vígður, tölvuáhugann og fjallgöngurnar og sjósundið þar sem hann hleður batteríin.

Sinclair spectrum og forritun

Anar lék sér aðeins í leikjatölvu frænda síns, Sinclair Spectrum, sem strákur en tölvuáhuginn jókst talsvert í framhaldsskóla. Á þeim árum fékk hann áhuga á að hanna og forrita forsíður á ritgerðir og vann fyrir sér með því að hluta á námsárunum. Að loknu stúdentsprófi lærði Arnar til þjóns, en segist hafa séð fljótlega að vinnutíminn yrði ómögulegur og þegar hann elti konuna suður í nám fann hann sína hillu í tölvunarfræðibraut Iðnskólans. Þar stundaði hann nám í umsjón og rekstri tölvukerfa og lærði meðal annars á uppsetningu þjóna og stýrikerfa. Það segir hann hafa höfðað vel til sín, að gera og græja, frekar en að sitja fastur í tölvunni við forritun allan liðlangan daginn.

Átti bara eftir að skrifa undir

Áður en Arnar hóf störf hjá HR hafði hann verið kerfisstjóri hjá Samvinnuferðum-Landsýn. Eftir að fyrirtækið varð gjaldþrota í nóvember 2001 vann hann hjá þrotabúinu fram á árið 2002 og hafði í raun boðist annað starf en átti bara eftir að skrifa undir þegar að símtal barst frá Háskólanum í Reykjavík.

Þetta var nú hálfgerð tilviljun því það var þannig að vinkona mín hafði sótt um starf á kennslusviði Háskólans í Reykjavík er sneri að tölfræði. Þegar hún hafði samband til að forvitnast um stöðu mála fékk hún þau svör að enginn af umsækjendunum hafi haft nægilega tölvukunnáttu. Það verður því úr að hún bendir á mig í starfið og hringir síðan í mig til að tilkynna mér að hringt verði í mig frá HR. Jú, allt í góðu með það, ég var tilbúinn að skoða málið og fór á fund þeirra sem þá unnu við nemendaskráningu og einnig yfirmann tölvudeildar. Þau lýsa starfinu fyrir mér en ég sagði þeim sem var að mér sýndist það snúast að mestu um að sitja kyrr sem hentar mér alls ekki. Þá biður yfirmaður tölvudeildarinnar mig um að fara aðeins fram og þegar að ég er kallaður aftur inn er mér boðið að koma og vinna í tölvudeildinni. Eftir heimsókn í HR daginn eftir leist mér mjög vel á, það var tekið vel á móti mér og notalegur og persónulegur andi ríkti í skólanum. Ég þáði því boðið og hóf störf þann 2. apríl en nokkrum dögum áður eða 31. mars hafði ég eignast son og því mikill framfaratími í mínu lífi. Sonurinn er nú kominn á annað ár í verkfræðinni í HR svo það mætti kannski segja að hann hafi bara fylgt mér.

Jólahlaðborð í nýbyggingu

Á þeim tíma er Arnar hóf störf var skólinn mun smærri í sniðum en nú og minnir hann að hafa verið starfsmaður númer 86 en skömmu síðar bættist við starfsmaður 88. Sá starfsmaður var Ragnhildur Helgadóttir, þá kennari við nýstofnaða lagadeild, og nú rektor Háskólans í Reykjavík.

Það hefur verið mjög áhugavert að fylgjast með skólanum stækka og þróast þessi 20 ár. Það breyttist til að mynda mikið þegar við sameinuðumst Tækniháskóla Íslands árið 2005 og þá bættist við húsnæði í Kringlunni til viðbótar við Ofanleitið. Svo var farið að pæla í húsnæðinu hér í Nauthólsvík í kringum 2006 og allt umstangið við flutningana frá lokum árs 2009 til byrjun árs 2010 sem var mjög annasamur tími. Ég man að við vorum hérna allan nóttina fyrir daginn sem við fluttum inn enda verið að setja upp skiptiborðin og færa þjónustuna yfir, skrúðgangan var lögð af stað úr Ofanleitinu og við enn að tengja síðasta vírinn Svo var enn verið að byggja Sólina þá, þannig að það voru borhljóð, barningur og læti hérna. En þetta var skemmtilegur tími þessi törn og ekta íslenskt þegar verið var að redda hlutum alveg á síðustu stundu. Svo man ég að við héldum jólahlaðborðið 2009 hérna í Nauthólsvíkinni. Önnur hæðin í Venus var þá einn risa geimur og eini staðurinn í húsinu þar sem búið var að dúka gólf. Svo þar voru sett upp borð og svið og hljóðkerfi og gengið inn um einhverjar bráðabirgða tröppur Þetta lukkaðist allt saman vel og er skemmtileg minning um fyrsta viðburðinn í húsinu.

Með hauspoka á milli hæða

Starf þjónustustjóra í jafn gríðarstórri byggingu og Háskólanum í Reykjavík er viðamikið. Arnar segir það til að mynda hafa reynst áskorun að dreifa netsambandi þráðlaust um króka og kima hússins og í gegnum ótal glerveggi með filmum sem drepi allt samband. Hann segir fáa daga hafa verið eins og mjög marga þannig að ekkert hafi unnist af listanum þar sem hlaupa hafi þurft til í annað. Að sama skapi hafi þeir dagar líka oft verið skemmtilegastir og einkennst af miklum samskiptum við fólk.

Það sem hefur gefið mér einna mest í starfinu eru mannlegu samskiptin. Þótt ég hafi grínast með að þurfa að hlaupa með hauspoka á milli hæða til að þekkjast ekki og vera gripinn í annað en það sem ég var á leiðinni í, þá hefur mér þótt vænt um það þegar fólk hóar í mig. Þá er fólk að bera undir mig ýmsa hluti sem það kannski veigrar sér við að senda inn beiðni út af því það heldur að erindið sé svo ómerkilegt eða finnst það jafnvel vandræðalegt að kunna ekki. En slíkt er minnsta mál fyrir mig og ég lít aldrei svo á, enda hef ég mína sérþekkingu og samstarfsfólk sína.

Rík þjónustulund Arnars og lipurð í samskiptum hefur sannarlega ekki farið fram hjá starfsfólki og nemendum HR. Ætíð er hann boðinn og búinn til að aðstoða og hefur hlotið árleg þjónustuverðlaun HR. Verðlaunin hljóta starfs­menn sem þykja hafa skarað fram úr á sviði kennslu, rann­sókna og þjón­ustu og er valið í höndum nemenda og starfsfólks Háskólans í Reykjavík.

Óbyggðir og sæskrímsli

Arnar er alinn upp í Mývatnssveitinni, byrjaði þar í ungliðasveit björgunarsveitanna og hefur alltaf haft mikinn áhuga á útivist. Í dag veit hann ekkert betra en að hlaða batteríin í óbyggðum.

Afi minn heitinn Snæbjörn gekk mjög mikið og hefur verið mín fyrirmynd í göngum. Áhuginn blundaði alltaf í mér en lagðist aðeins í dvala þegar ég fór á heimavist í framhaldsskóla og svo átti ég svolítið erfitt með að koma mér af stað þegar við fluttum suður og mikið var að gera við að eiga börn og vera í námi og vinnu. En árið 2008 skráði ég mig í hóp hjá Íslenskum Fjallaleiðsögumönnum og hef síðan þá í raun ekki stoppað. Síðastliðin ár hef ég verið í fararstjórnarteymi hjá

Fjallavinum og æft og undirbúið hópa yfir vetrarmánuðina til að fara á Hvannadalshnjúk eða Hrútfellstinda að vori. Svo hef ég farið með hópa á sumrin helstu gönguleiðir eins og Laugaveginn, Fimmvörðuháls, Grænahrygg og fleiri slíkar. Ég hleð batteríin rosalega vel á fjöllum og finnst þetta afar skemmtilegt, líður vel á fjöllum og vil helst vera alveg í óbyggðum utan þjónustusvæðis.

Arnar er ekki eingöngu fjallagarpur mikill heldur hefur hann einnig verið titlaður viðurkenndur sjósundssérfræðingur Háskólans í Reykjavík. Síðastliðin 12 ár hefur hann stundað vikulegt sjósund í Nauthólsvíkinni og haldið utan um Sæskrímslin, hóp starfsmanna sem syndir þar reglulega. Einnig hefur hann drifið samstarfsfólk með sér í göngur og á fjöll og skipulagt gönguferðir fyrir hópa Hringa.

Stór ákvörðun að söðla um

Arnar segir það hafa verið stóra ákvörðun að skipta um starf en eftir að hafa hugsað málið vel og lengi hafi hann ákveðið að nú væri rétti tíminn til að söðla um og takast á við á nýjar áskoranir. Við í HR munum að sjálfsögðu sakna Arnars sárt og er honum þakkað kærlega fyrir vel unnin störf síðustu áratugi.

///

Arnar Egilsson, service manager at RU, has now left the building after working for the university for the last 20 years. Most staff and students know Arnar, who is known for always lending a helping hand and sorting out technical issues with the most positive attitude and kindness towards his fellow staff and students. After working for so long at the same place, where he has particularly enjoyed the unexpected days, running around RU and interacting with many throughout the day, Arnar says it was a big decision to take on a new job. After carefully mulling the decision over, he decided this would be the right time for him to move on to new challenges. Arnar will be most missed at RU. We thank him very much for his hard work over the last decades and wish him luck in his new job.