Prime Minister's Office of Iceland

04/28/2024 | Press release | Distributed by Public on 04/28/2024 04:47

Allt er hægt á íslensku: sigurvegari í efniskeppni vandamálaráðuneytisins

Ungur og upprennandi kvikmyndagerðarmaður hlaut á dögunum fyrstu verðlaun í efniskeppni vandamálaráðuneytisins. Viðar Már Friðjónsson er 15 ára Hafnfirðingur sem heillaði dómnefnd keppninnar með sínu framlagi - endurgerð og íslenskun atriðis úr bíómyndinni Dune 2.

Myndbandið má sjá hér!

Alls bárust rúmlega 160 innsendingar í efniskeppnina sem skipulögð var af hinu nýja "ráðuneyti" í vetur. Það er menningar- og viðskiptaráðuneytið í samstarfi við mennta- og barnamálaráðuneytið og forsætisráðuneytið sem standa að baki verkefninu.
Vandamálaráðuneytið fékk til liðs við sig margs konar hæfileikafólk til þess að hvetja sem flesta til þess að gera fjölbreytt samfélagsmiðlaefni á fjölbreyttri íslensku. Þátttakendur í keppninni sýndu og sönnuðu að íslenskan er bæði sprelllifandi og mjög skapandi tungumál og átti dómnefnd keppninnar út töluvert vöndu að ráða.

Umsögn dómnefndar um sigurvegara keppninnar:


"Metnaðarfullt og skemmtilegt myndband þar sem fjölbreyttir hæfileikar þátttakenda njóta sín, auk íslenskrar tungu. Endursköpun flókins kvikmyndaatriðis er leyst með miklu hugmyndaflugi, sköpunarkrafti og natni við smáatriði þar sem öllum brögðum er beitt. Ástríða fyrir viðfangsefninu leynir sér ekki, það er allt hægt á íslensku!"


Viðar Már er þrátt fyrir ungan aldur búin að framleiða tvær bíómyndir ásamt vinum sínum, önnur þeirra var sýnd í Bæjarbíói í Hafnafirði og stefnir hann á að koma þeirri síðari einnig í sýningu þar. "Við vinir erum að gera þætti núna. Ætli ég noti ekki eitthvað af peningunum í það verkefni og setji svo eitthvað inn á bankabók," segir Viðar Már sem mætti ásamt foreldrum sínum að taka á móti verðlaunafénu, 300.000 krónum. Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráherra færði Viðari blóm að tilefninu og hvatti hann til dáða bæði í framleiðslu á efni á íslensku og í kvikmyndagerð.

"Það er nákvæmlega þessi framkvæmdagleði og útsjónarsemi sem kemur ungu fólki áfram og lætur drauma rætast. Viðar Már er frábær innblástur fyrir okkur öll og pakkar uppáhaldskvikmyndaatriðinu sínu inn í íslenska umgjörð, bæði með orðum og umhverfi. Ég efast ekki um að hann er rétt að byrja sína vegferð í kvikmyndagerð og fagna því að hún sé á íslensku," segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir.

Dómnefnd vandamálaráðuneytisins að þessu sinni skipuðu:
Rakel Tómasdóttur, hönnuð og listakonu
Sögu Garðarsdóttur, leikkonu og handritshöfundi
Birnu Rún Einarsdóttur, leikkonu og samfélagsmiðlastjörnu
Ágúst Beinteini Einarssyni, tónlistamanni og umboðsmanni

Dómnefndin valdi auk sigurvegarans 10 aðra þátttakendur/hópa sem fá sérstaka viðurkenningu fyrir sínar innsendingar,í forsvari fyrir þau eru:

Alda Örvarsdóttir
Axel Sturla Grétarsson
Ragna Sigurþóra Hólm Halldórsdóttir
Heiðdís Tómasardóttir
Bríet Sóley Valgeirsdóttir, Þyrí Úlfsdóttir og Viktoría Dalitso Þráinsdóttir (sendu inn saman)
Orri Guðmundsson
Birta Gunnarsdóttir
Katrín Lea Daðadóttir
Sólon Thorberg Helgason
Ísabella Lena Borgarsdóttir

Ráðuneytisstjórar verkefnisins í ár voru þau Sunneva Einars og Patrekur Jamie.