Government Offices of Iceland

05/24/2022 | Press release | Distributed by Public on 05/24/2022 10:17

Ísland styrkir loftslagstengd verkefni í Afríku

Ísland hefur gerst aðili að sjóðnum EEP Africa (The Energy and Environment Partnership Trust Fund) með 200 milljóna króna framlagi á árunum 2022 til 2025. Starfsemi EEP Africa er í höndum Norræna þróunarsjóðsins (NDF) í Helsinki og eru önnur aðildarríki sjóðsins Austurríki, Finnland og Sviss, auk NDF. Leggur sjóðurinn áherslu á að veita styrki til loftslagstengdra verkefna í austur- og suðausturhluta Afríku, styðja við starfsemi lítilla og meðalstórra fyrirtækja og veita þeim ráðgjöf. Það gerir sjóðurinn með því að veita styrki til að hefja framkvæmdir og með því að styðja við viðskiptaáætlanir fyrirtækja á staðnum og miðla af þekkingu sinni til þeirra. Á árunum 2018-2020 samþykkti sjóðurinn styrki til ríflega sjötíu verkefna í þrettán ríkjum. Meirihluti fyrirtækja sem sjóðurinn styrkir er undir stjórn heimamanna, einkum kvenna.

Aðild Íslands að EEP Africa styður við stefnu ríkisstjórnarinnar um að auka stuðning við loftslagstengd verkefni í þróunarsamvinnu og samræmist stefnu Íslands um alþjóðlega þróunarsamvinnu sem samþykkt var á Alþingi 2019.